24.7.2011 | 17:19
Leikfélagi
Kristinn Kári fékk einstaklega góða sendinguna fyrir viku síðan þegar Matthías frændi hans og vinur kom einn síns liðs frá Íslandi. Kristinn Kári taldi niður dagana, klukkutímana og mínúturnar þangað til að Matthías kom - ekki það að skilja að við höfum ekki verið skemmtileg og hress - en við kunnum greinilega ekki alla 9 ára brandarana.
Frá því Matthías kom hefur verið eitt allsherjar prógramm og við höfum ekki látið rigningu síðustu þriggja vikna stöðva okkur í því. Þeir frændur eru búnir að fara í náttúrminjasafn að skoða risaeðlur og lifandi kóngulær (risaeðlurnar voru dauðar), sundlaugagarð þar sem öldulauginni voru gerð góð skil og herminjasafn. KK hefur verið í strangri þjálfum síðustu vikur og gerir nú 50 upphýfingar á dag. Hann verður orðinn rosalegur með haustinu - og vonandi geta þá foreldrarni amk 5.
Á fimmtudaginn í síðustu viku var líka þjóðhátiðardagur Belga. Þá borða Belgar vöfflur og horfa á hersýningar. Við vorum eins og innfædd og stóðum í grenjandi rigningunni á meðan herbílar og götusópar óku hjá. Við sáum m.e.a.s. belgíska konunginn og drottninguna auk þess sem allar gerðir belgískra nautgripa voru til sýnis - einstaklega mikið stuð.
Við höfum ákveðið að nú sé komið nóg af rigningu. Á fimmtudaginn fær Hjördís sinn eigin leikfélaga þegar Hrefna kemur í heimsókn með Stebba og börnin. Allir mjög spenntir fyrir því.
Hér má svo sjá Kristinn Kára bjarga evrunni í síðustu viku - og ekki vanþörf á því:
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2011 | 20:43
Flugur og hamingja á Moonensstræti
Þrátt fyrir að belgískir krakkar séu stútfullur af sykursætum vöflum og mennirnir marineraðir í dökkum bjór og konurnar í kirskuberjabjór hafa belgískar flugur tekið ástfóstri við Kristinn Kára. Nýi strákurinn á Moonensstræti hefur á undanförnum tveimur vikum náð sér í bit um allan líkamann, jafnvegl eitt á augnlokinu, annað á kinninni og það þriðja á enninu. Fullorðna fólkið í smáfjölskyldunni hefur hins vegar sloppið nokkurn vegin óskaddað frá þessari baráttu - kannski það sé kínín í bjórnum eða hvítvíninu?

Hamingjan kom annars í heimsókn hingað í gær þegar í ljós kom að Matthías - frændi og besti vinur Kristins Kára - kemur í heimsókn á mánudaginn og verður hjá okkur í tíu daga. Eftir að hafa spilað fótbolta við frönskumælandi stráka úr Benetton-auglýsingu verður KK vafalaust ánægður að þurfa ekki að giska á hvað le ball, le marque, le corner og merde þýða.
Við stefnum að því að fara með Matthíasi á vatsrennibrautagarðinn ógurlega (sem er stútfullur af belgum í litlum sundskýlum, rennibrautum og vatni) og vonandi að kíkja á risaeðlur. Svo er bara mesta stemmningin að sjá hvort það rigni áfram hjá okkur - ef ekki þá verður jafnvel lestarferð út á strönd.
Á meðan Tómas reynir að draga þjóðina á afturlöppunum inn í Evrópusambandið hafa Hjördís og KK lagst í blóma- og kryddrækt. Blómin eru á norðursvölunum á meðan basilika, timían, graslaukur, steinselja og mynta eru ræktuð á suðursvölunum.
7.7.2011 | 21:03
Bruxelles Douze Pointe
Við erum loksins að verða búin að koma okkur fyrir hér í fyrirheitnalandinu og því ekki úr vegi að byrja að blogga aftur - amk fyrir ömmur og afa sem hafa ekki facebook.
Það hefur verið mikið að gera fyrsta hálfan mánuðinn. Föstudaginn eftir að við komumst út fyrir höftin mætti frönskumælandi strákahópur til okkur og ruslaði búslóðinni inn. Á aðeins fjórum tímum var búið að hífa heila búslóð upp á þriðju hæð og taka allt úr kössum. Ótrúlega snaggarlegir drengirnir skildu okkur eftir með íbúð og húsgögn á hádegi og þá var hægt að fara að raða öllu saman. Næstu dagar fóru í að raða húsgögnum og setja saman nýja skápa og kommóður frá IKEA (ferðasögurnar úr IKEA koma svo út í bók fyrir næstu jól). Kristinn Kári hitti reyndar íslenskan strák sem heitir Bubbi og fékk að fara með honum í skólann (ISB) og leyst rosalega vel á það.
Þar sem við erum komin til útlanda leituðum við að strönd (svo allir í smáfjölskyldunni gætu leikið sér) - því það er alltaf sól og sumar á sumrin í útlöndum. Keyrðum í einn og hálfan tíma til De Haan þar sem gamalt fólk fer og lætur Norðursjávarhafgoluna leika um skallann. Hjördís fór aldrei undan teppinu og hélt því fram að það væri kalt - en strákarnir voru á öðru máli. Næst förum við bara þegar það er ekki sjávarþoka á ströndinni.
Á mánudaginn í síðustu viku kom svo Helga Pálma vinkona okkar í heimsókn. Við sýndum henni stórborgina og fórum svo frá fimmtudegi fram á sunnudag á rokkhátiðin Rock Werchter. Þar tjölduðum við með útskriftarárgangi Versló og öðrum hressum Íslendingum sem virtust alltaf vera að koma af tónleikum með Stebba og Eyfa því vinsælasta lagið á tjaldstæðinu undir morgun var alltaf "Nína - óh - Nína - óh" með smá slettu af þjóðsöngi Íslendinga. Við sáum og hlustuðum á eftirfarandi hljómsveitir:
Coldplay sem voru með flugelda, leiser og ljósasjóv, Beady Eye sem var einu sinni í Oasis, EELS sem kunnu á músík, Queens of hte Stone Age sem voru nokkuð harðir, Hives sem voru með hroka, Hurts sem skemmtu stelpunum, Triggefinger sem voru gamlir og belgískir (svolítið eins og bjórleginn ostur), White Lies sem voru ollu vonbrigðum, the National sem voru frábærir þótt hljóðið hafi ekki unnið með þeim, Arctic Monkeys sem voru mjög þéttir og gerðu unglingsstelpur alveg brjálaðar, Kings of Leon sem voru amerískir, I Blame Coco sem var mjög skemmtileg en með ótrúlega líka talrödd og söngvari Kings of Leon, Elbow sem voru með skegg, PJ Harvey sem var ekki með skegg en olli okkur líka vonbrigðum þrátt fyrir góða tónlist, Portishead sem voru frábær þó Belgar hafi ekki alveg kunnað að meta hversu frábær þau voru, Everything Everything sem voru með dansskotna popptónlist sem Hjördís kunni ekki að meta, Kasabian sem voru ekki alveg að finna sig (kannski af því þeir voru að reyna að vera mjög harðir undir hádegissól), Two Door Cinema Club sem stálu hátiðinni með sínum rauðhærða söngvara, Kaiser Chiefs sem okkur langar að sjá aftur í nóvember, Grinderman sem sannaði enn einu sinni hversu töff Nick Cave er (sérstaklega þegar hann tók miðaldra konu sem langaði í eiginhandaráritunupp á svið ), Fleet Foxes sem eru jafnvel betri á tónleikum en í hljóðveri (og söngvarinn ætlaði að fara að gráta út af fagnaðarlátunum), Iron Maden sem skemmti okkur ekki, Robyn sem lét stelpurnar dansa og the Black Eyed Peas sem létu stelpurnar dansa minna (þá voru reyndar Tómas og KK farnir heim með lestinni).
Við mælum sem sagt með Rockwerchter 2012 fyrir alla.
Á mánudaginn síðasta byrjaði Tómas svo að vinna - en þó ekki of mikið þar sem það er sumar og það er nauðsynlegt að gera ýmislegt annað.
Bloggum vonandi fljótlega aftur - og þá kannski aðeins styttra.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)