Af hverju kveikti maðurinn í sér?

Í gær var stóri dagurinn - stórir bílar keyrðu yfir litla bíla og gerðu það vel. Eins og kynnirinn sagði við upphaf leikanna þá er það að fá að njóta Monster Truck Jam eitt af þeim frelsum sem gerir Bandaríkin svo frábær. Kannski við hefðum átt að mæta til Írak og Afganistan með stóra bíla að keyra yfir litla bíla til þess að sýna þeim fram á hversu mikilvægt frelsið er. Þá hefðu Talibanarnir og Saddam örugglega verið hraktir frá völdum með kústsköftum og kökukeflum.

Annars var hafnaboltaleikvangurinn stútfullur og allir í feiknastuði. Tómas og Kristinn Kári héldu með the Grave Digger (sem hefur verið í bransanum í 25 ár). Hann vann þó ekki. San Francisco tapaði svo líka fyrir L.A. í fjórhólakappi - þá fyrst varð KK reiður. Áhorfendur þekktu greinilega bílana og ökuþórana, sérstaklega frúin fyrir aftan okkur sem öskraði svo hátt og var svo spennt að snjóþvegnugallabuxurnar og krumpujakkin rifnuðu næstum því utan af henni. Hápunktur kvöldsins var þó þegar einhverjum manni var lyft í 30-40 metra hæð. Þar kveikti hann í sér og hoppaði niður (á útblásna dýnu fyrir neðan). Lýðurinn ærðist af hrifningu, enda ekki á hverjum degi sem menn kveikja í sér og láta sig falla logandi um tugi metra. Kristinn Kári tók þessu þó með stóískri ró og spurði "já, en af hverju kveikti maðurinn í sér?". Honum fannst svörin sem hann fékk frekar óskýr. Annars eru komnar myndir á myndasíðuna okkar af þessum atburði og sjón er sögu ríkari. Þar má m.a. sjá skólann hans KK sem hann er hæstánægður með, þó að hann sé ekki enn kominn í mandarínutímana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband