Rosamikið að gera

Bloggskortur síðustu vikna er svo sannarlega ekki til kominn vegna fréttaleysis - þvert á móti hefur varla verið dauð stund til skrifta. 

Daginn áður en Matthías fór komu Hrefna og Stebbi í heimsókn með Júlíus og Ragnheiði Máríu. Með flugvélinni sem þau fóru til Íslands komu Kristinn og Guðbjörg í heimsókn. Þau verða hér í Evrópusambandinu frá á sunnudag (í næstu viku koma svo Daði, Óli og Erik). 

img_2669.jpg

Með Hrefnu, Stebba og krökkunum var barnabelgía tekin með stormi. Við fórum í skemmtigarðinn Walibi þar sem við skelltum okkur í rússíbana og klessubíla. Eiturgott belgískt stuð. Við fórum líka í vatnsrennibrautagarð og síðast en ekki síst fórum við í kajak-ferð í Ardennafjöllunum. Þar rérum við í gegnum skóg, framhjá höll og niður flúðir - mjög skemmtilegt. Tómasi og Stebba tókst líka að gera góðan skurk í bókinni "Around Brussels in 80 beers". Hápunkturinn þar var vafalítið "volgur, goslaus og súr" Gueze bjór á Morte Subite. Stelpurnar fengu svo barnslausan dag til að versla og dansa. Hápunktur heimsóknarinnar var þó vafalítið þegar Hrefna tók armbeygju númer 1.000 - en samkvæmt húsreglunum kostar 30 armbeygjur að segja ljótasta orð í heimi samkvæmt KK (Fxxx). Við bíðum nú eftir þakkarskeyti frá foreldrum hennar fyrir að hafa klárað uppeldið fyrir þau svona snemma á fertugsaldri dótturinnar.

img_2725.jpg img_2748.jpg

Það hefur ekki verið minna um að vera eftir að amman og afinn komu. Kristinn Kári var við það að sprynga af spenningi á flugvellinum. Hann var þó í heilu lagi þegar þau loks komu út og hann gat veifað íslenska fánanum eins og honum hafði aldrei verið veifað áður. 

img_2757.jpgimg_2795.jpgMeð ömmuna og afann í farteskinu keyrðum við strax morguninn eftir á Normandy-ströndina (á leiðinni sáum við reyndar andlit Jóhannesar skírara sem geymt er í Amiens í Frakklandi. Þar skoðuðum við innrásarstrendur bandamanna, einn refil (ekki hægt að fara í frí nema að skoða amk einn refil) og Mont St.-Michel. Þaðan fórum við í örstuttan túr um París - en tókst þó svo sannarlega að sjá allt það merkilegasta (m.e.a.s Versali ásamt um milljón öðrum túristum). Fórum m.a. á La Coupolle þar sem við héldum upp á fimmtugsafmæli Guðbjargar. Á þessum risastóra stað slökktu þjónarnir ljósin og gengu syngjandi inn salinn með logandi tertu. Guðbjörg horfði með samúðaraugum á eldgamla konu á næsta borði - sannfærð um að verið væri að koma þeirri gömlu á óvart. Þegar þjónarnir staðnæmdust við okkar borð var hún enn sannfærð um að þetta væru einhver mistök eða að þjónarnir væru bara að hvíla sig. Stuttu seinna varð hún eldrauð í framan, orðin fimmtug í París (en þó hvergi annars staðar). 

img_3184_1104659.jpgimg_3174.jpgTil þess ferða-púlsinn héldist áfram nægilega hár (þetta var eins konar cross-fit ferðalag) keyrðum við frá París niður í alpana þar sem við gistum í St. Gervais sem er næsti bær við Chamonix. Þar fórum við upp á Mont Blanc, keyrðum til Sviss og gengum um fallega bæi og fjöll (og borðuðum kartöflur og pizzu með bláberjasultu sem skolað var niður með nær ódrekkandi súkkulaðibjór). 

Nú erum við sem sagt komin aftur til Brussel (eftir að hafa keypt sinnep í Dijon) og ætlum að hafa nokkra náðuga daga. Hversdagurinn snýr svo aftur í næstu viku þegar KK byrjar í skóla, Tómas fer aftur í vinnuna og Hjördís byrjar að læra frönsku. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörg Pálsdóttir

hæ hæ en frábært að fá að fylgjast með ykkur í Brussel.

;-) kv GP

Guðbjörg Pálsdóttir, 21.8.2011 kl. 08:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband