28.9.2011 | 20:29
Amma og afi í heimsókn frá Usbekistan
Amma og afi á Flókó (einnig þekkt undir nafninu Mapa) komu í heimsókn á laugardeginum fyrir viku. Brussel var víst aðeins og stutt frá Íslandi svo þau millilentu í Uzbekistan og London á leiðinni - bara til þess að gera þetta spennandi. Þau stóðu sig líka svona rosalega vel og komu með sumarið - 25 gráður og sól upp á alla daga svo þau geta drukkið morgunkaffið sitt á norðursvölunum og kvöldbjórinn á suðursvölunum og allir sáttir.


Á sunnudaginn kíktum við með þeim til Brugge (þar sáum við og fengum að snerta blóð Krists - KK þurfti að fara tvisvar þar sem hann var svo upprifinn að hann gleymdi að horfa á blóðið þegar hann fékk að snerta glasið sem það var í). næst er bara að horfa á stórmyndina In Bruges. Þau eru svo búin að arka um Brussel og hafa eins og aðrir gestir fengið að kynnast belgískum bjór. Um helgina ætlum við svo í bíltúr, gistum m.a. í Ardennafjöllunum þar sem við ætlum að kíkja á stórborgirnar Durbuy og Dinant (þar sem Stebbi Magg fékk besta mat í sögu Belgíu).

Lífið gengur annars sinn vanagang. Við reynum að forðast nágrannana þar sem KK þarf að æfa sig á trompetinn a.m.k. hálftíma á dag. Hann nær bestum tón þegar hann spilar rosalega hátt - þá meina ég af öllum krafti. Þetta kemur hratt hjá einkasyninum og allir í fjölskyldunni eru jafnánægðir með að hann hafi ekki valið fiðlu (sérstaklega þar sem það er ekki alveg hægt að spila svona hart á fiðlu).

Hjördís er við það að klára fyrsta mánuðinn í frönskunni og stefnir á annan mánuð þar sem hún verður amk 21 tíma á viku - svo fer henni að dreyma á þessu hrognamáli og þá verður svo sannarlega gaman á Moonensstræti. Tómas reynir á meðan að koma þjóðinni - eða amk gjaldmiðlinum inn í ESB. Kannski Ísland verði þá eina evruríkið eftir einhverja mánuði, en við förum ekki að láta það hafa áhrif á heimilislífið.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.