12.3.2012 | 20:50
Printemps
Vorið er mætt og Morrinn horfinn í Moonensgötu. Síðustu tvo daga hefur verið 15° hiti og nokkuð léttskýjað. Hugsanlega er þessi hiti ástæðan fyrir því að Hjördís hljóp til og bakaði ástarpunga og kleinur - sönn saga - ástarpunga og kleinur í massavís.

Annars er langt síðan við blogguðum síðast. Veturinn hefur einhvern veginn drepið bloggkraftinn en nú stendur allt til bóta. Svona til þess að fara hratt yfir sögu var Hjördís á Íslandi frá miðjum janúar og fram í febrúar að kenna í Háskólanum og hjúkra einhverjum stálheppnum sjúklingum Landspítalans. Kristinn Kári var með heima í eina viku en síðan kom afi Binni með hann hingað út og sinnti hinum ýmsu heimilisstörfum. Við þrír karlarnir höfðum það fínt, en au pairið fékk ömmu grétu í heimsókn eina helgi. Við fórum að skoða Íslendingaslóðir í Gravelins í Norður-Frakkland. Það var sérstaklega gert fyrir afa Binna - en amma gréta fékk í staðinn að komast í Gary Weber og fékk dádýrakjöt í matinn.

Eftir að Hjördís kom aftur heim í hlýjan faðm meginlandsins fórum við í skíða og brettafrí til Þýskalands og Austurríkis. Við skíðuðum í heila viku í Fellhorn (gistum í Oberstdorf), borðuðum weisswurst og bretzel og drukkum eðal þýskan öl. Lífið gerist ekki mikið betra en það - nema reyndar að Steinar, Raggý og krakkarnir þeirra kítku líka með og Hjördís svaraði bónorði Tómasar játandi (erfitt samt að segja hvort það var kampavínið eða háfjallaveikin sem gerðu útslagið). Nú er bara verið að undirbúa sveitabrúðkaup og allir spenntir fyrir því. Mjög fullorðins.


Kristinn Kári og Bubbi léku sér saman næstum alla daga í þýska snjónum - byggðu snjóhús, skíðuðu/brettuðu og fóru í snjókast. Ef þið skoðið vel myndina hér til hægri sést hvað KK var orðinn óhræddur, brettandi út fyrir brautir í gegnum skóginn og stökkvandi á öllu eins og sést fyrir neðan.
Kristinn Kári er annars að æfa fótbolta, tennis og klettaklifur í skólanum til viðbótar við trompetinn. Íþróttaálfurinn keppir svo í tennis við fullorðna fólkið á laugardögum - og eftir hremmingar síðustu helgar á vellinum stefnum við á að ráða okkur tenniskennara við fyrsta tækifæri (og Kiddi fær ekki að koma með). Næsta helgi er það svo heimsókn í stórborgina til Eriks og Bylgju - fótboltaleikur og St. Patrick's Day. Það verður sérstaklega skemmtilegt.
Hjördís er líka á kafi í frönskunni og er svo líka komin í fótboltalið - alvöru belgískt fótboltalíð. British United FC er núna aðalliðið á heimilinu (að einhverjum enskum liðum og Val ólöstuðum). Alvöru æfingar á miðvikudögum og svo hörkuleikir um helgar - eins og myndin ber með sér.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.