Hjólandi hress

IMG_5610Við höfum svikist all svakalega undan því að setja eitthvað inn hérna síðustu vikur. Í millitíðinni höfum við farið í frábært frí til Marokkó - þar sem við gengum um fjöll, fórum á brimbretti og sáum slöngutemjara. Hjördís vann bikar fyrir fótboltaafrek og lífið hefur haldið áfram sínum vanagangi.

KK gengur vel í skólanum og er í klettaklifri, fótbolta og tennis eftir skóla. Í tilefni uppstigningardags var skóla og vinnufrí í fjóra daga. Til þess að fagna þessum tímamótum leigðum við okkur íbúð í smáþorpi í miðjum belgískum skógi - sem KK og Hjördís klifruðu í - og öll þrjú hjóluðum eins og vindurinn (eða vegavinnumenn um).

Allt í kring var sveitabær með beljum, kanínum, hundu, köttum, hænum og öndum. Um leið og við stukkum út úr bílnum dró KK djúft andann og sagði: "þetta er góð lykt" - greinilega ekki búinn að gleyma sveitinni. 

IMG_5590

 

 

IMG_5553

 

 

 

 

 

IMG_5577

 


Amma og afi mætti í vísindi og ferðalög

IMG_4610

Við höfum víst ekki staðið við fyrri loforð um að verða duglegri að blogga - en nú er kominn sumartími í Evrópu svo þetta hlýtur að fara að hrökkva í gang. Það verða svo allir bloggandi á Íslandi þegar viðgöngum í Evrópusambandið þar sem öll aðildarríki ESB verða hafa sumar og vetrartíma - alveg satt. Til þess að fagna því bökuðu Hjördís og frúin á Rue Argus kleinur og ástarpunga sem voru til sölu á alþjóðadegi International School of Brussels (sjá mynd af KK, Bubba og Matthildi Stellu) - en í Elementary School þar sem KK er eru töluð 40 tungumál (vel á minnst var foreldraviðtal um daginn þar sem snúðurinn fékk þessa glimmrandi umsögn). 

 Við vorum annars svo heppin á miðvikudaginn að afi Kristinn og amma Guðbjörg mættu á svæðið - í annað skipti síðan við fluttum til ESB. Til þess að undirstrika andstöðu sína við sambandið ætla þau þó ekki að vera hérna of lengi. Við förum því saman til Marokkó á sunnudag og verðum þar í 10 daga. Vonandi verður næsta blogg um það. Kristinn Kári hefur annars átt náðuga daga með ömmu sinni og afa.

IMG_0781IMG_4626

Á föstudag mætti öll stórfjölskyldan á "Science Fair" þar sem allir krakkarnir í 5. bekk sýndu niðurstöður rannsókna sem þau hafa unnið að síðustu fimm vikur. KK gerði rannsókn á þrýstingi og hversu hátt körfubolti skoppar. Mikilvægasta niðurstaðan var að það þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því þó boltinn sé ekki að fullu uppblásinn - hann skoppar næstum eins hálfblásinn og uppblásinn. Þetta var einstaklega skemmitlegt - og amerískt. Þetta var alveg hafnarbolta-amerískt... bara skemmtilegra.

IMG_4640

Við skelltum okkur líka með afa og ömmu á Marolles markaðinn (þar sem Tinni keypti bátinn í samnefndri mynd um vel klipptan Belga sem á hund og vingast við mann með skegg - mælum með Tinnatoppnum í 3D). Hér hefur annars verið vor síðustu 2-3 vikur - um 15° hiti og sól. Íslenskur sumarhiti sem engan svíkur (nema þá sem þurfa að vinna inni að science fair verkefnum). Í tilefni vorsins skelltum við okkur um miðjan mars til Londres að heimsækja Birki vin okkar (og foreldra hans, hjónin Erik og Bylgju). Það var einstaklega gaman. Súkkulaði porterar og stout - og auðvitað fótbolti þegar við fórum og sáum Gylfa Sigurðsson skora tvö mörk fyrir Swansea á móti Fulham. Tómas las alla reglubók alþjóða fótboltasambandsins og gat eftir það fylgst nokkurn veginn með leiknum

IMG_0725

 - þetta er náttúrlega enginn skák, siglingar, fagottleikur eða handbolti... en virkar svo sem alveg sem íþrótt. Við borðuðum líka frábæran indverskan mat og fórum í London Eye (fr. œil de londres fyrir dygga aðdáendur síðunnar). Umfram allt var bara einstaklega gaman - og bíðum við spennt eftir að fá þau næst hingað á meginlandið (á myndinni hér að neðan er barnið ánægt fyrir hönd Tómasar... í alvöru (enda er bjórinn frá San Francisco, næstum næstu götu frá þar sem við bjuggum).

IMG_0675

 


Printemps

Vorið er mætt og Morrinn horfinn í Moonensgötu. Síðustu tvo daga hefur verið 15° hiti og nokkuð léttskýjað. Hugsanlega er þessi hiti ástæðan fyrir því að Hjördís hljóp til og bakaði ástarpunga og kleinur - sönn saga - ástarpunga og kleinur í massavís.

 

IMG_4444

Annars er langt síðan við blogguðum síðast. Veturinn hefur einhvern veginn drepið bloggkraftinn en nú stendur allt til bóta. Svona til þess að fara hratt yfir sögu var Hjördís á Íslandi frá miðjum janúar og fram í febrúar að kenna í Háskólanum og hjúkra einhverjum stálheppnum sjúklingum Landspítalans. Kristinn Kári var með heima í eina viku en síðan kom afi Binni með hann hingað út og sinnti hinum ýmsu heimilisstörfum. Við þrír karlarnir höfðum það fínt, en au pairið fékk ömmu grétu í heimsókn eina helgi. Við fórum að skoða Íslendingaslóðir í Gravelins í Norður-Frakkland. Það var sérstaklega gert fyrir afa Binna - en amma gréta fékk í staðinn að komast í Gary Weber og fékk dádýrakjöt í matinn.

IMG_4472

Eftir að Hjördís kom aftur heim í hlýjan faðm meginlandsins fórum við í skíða og brettafrí til Þýskalands og Austurríkis. Við skíðuðum í heila viku í Fellhorn (gistum í Oberstdorf), borðuðum weisswurst og bretzel og drukkum eðal þýskan öl. Lífið gerist ekki mikið betra en það - nema reyndar að Steinar, Raggý og krakkarnir þeirra kítku líka með og Hjördís svaraði bónorði Tómasar játandi (erfitt samt að segja hvort það var kampavínið eða háfjallaveikin sem gerðu útslagið). Nú er bara verið að undirbúa sveitabrúðkaup og allir spenntir fyrir því. Mjög fullorðins.

 

IMG_4510IMG_4483

Kristinn Kári og Bubbi léku sér saman næstum alla daga í þýska snjónum - byggðu snjóhús, skíðuðu/brettuðu og fóru í snjókast. Ef þið skoðið vel myndina hér til hægri sést hvað KK var orðinn óhræddur, brettandi út fyrir brautir í gegnum skóginn og stökkvandi á öllu  eins og sést fyrir neðan.IMG_4490

Kristinn Kári er annars að æfa fótbolta, tennis og klettaklifur í skólanum til viðbótar við trompetinn. Íþróttaálfurinn keppir svo í tennis við fullorðna fólkið á laugardögum - og eftir hremmingar síðustu helgar á vellinum stefnum við á að ráða okkur tenniskennara við fyrsta tækifæri (og Kiddi fær ekki að koma með). Næsta helgi er það svo heimsókn í stórborgina til Eriks og Bylgju - fótboltaleikur og St. Patrick's Day. Það verður sérstaklega skemmtilegt.

Hjördís er líka á kafi í frönskunni og er svo líka komin í fótboltalið - alvöru belgískt fótboltalíð. British United FC er núna aðalliðið á heimilinu (að einhverjum enskum liðum og Val ólöstuðum). Alvöru æfingar á miðvikudögum og svo hörkuleikir um helgar - eins og myndin ber með sér.

IMG_4551 

 


Vetrarstuð

 

IMG_4050

Erik, Bylgja og Birkir voru í heimsókn hér í Brussel um helgina- alla leið frá Londres (svo þau eru eiginlega nágrannar okkar). Við skelltum okkur saman á myndasögusafn Brussel á laugardaginn (Belgar eru brjálaðir í myndasögur) og út að borða víetnamskan mat um kvöldið. Í miðri máltíðinni ruku stelpurnar út til að sjá vampírubíómynd. Þjónustustúlkurnar stóðu hissa yfir köllum og strákum með of marga aðalrétti og virtust velta fyrir sér hvað olli því að þær ruku á dyr (Tómas og Erik þorðu ekki að segja sannleikann, þ.e að þær ruku burt til að sjá Twilight). Á sunnudeginum skelltum við okkur á jólamarkað í Köln þar sem jólabarnið var líklega þýskt. Til þess að ljúka gleðihelginni elduðum við villisvín áður en stórborgarhjónin héldu heim. Í þetta sinn tók Erik bara 60 armbeygjur (mun betra en í sumar) og Bylgja tók sín sett með stakri prýði (var þó langt fram atvinnuarmbeygjunum hennar Hrefnu).

IMG_4131

IMG_4136

Helgina þar á undan vorum við annars í París þar sem KK keppti á fótboltamóti diplómatabarna og hunangsbangsa alls staðar úr Evrópu. Öllum til mikillar ánægju lenti ISB U12 í 2 sæti með jafnmörg stig og sigurliðið. Auðvitað var ekki hægt að sleppa því að kíkja á Monu Lisu (sem KK var búið að hlakka mikið til að sjá) og upp í Effelturninn.

IMG_3920

 

IMG_3901

Hörkustuð í Hurghada

IMG_3615Í mótmælaskini við haustið og loforð um belgískan vetrarkulda skelltum við okkur í arabíska vorið sem allir eru að tala um í Egyptalandi. Í Hurghada (sem er við Rauðahafið) tók á móti okkur meiri sumarvindur en vorhret - 28°og sól í heila viku á meðan við borðuðum hummús og drukkum Sakkarabjór.

Eina markmið ferðarinnar var að slappa af og ná sér í smá lit (einhvers konar brúnan lit í staðinn fyrir þennan gráa belgíska). Við náðum að uppfylla þessi metnaðarfullu markmið auk þess sem við syntum um kóralrif og spiluðum tennis, billiard og borðtennis. KK fór á úlfaldabak og allir fengu að prófa seglbretti. Hjördís setti m.e.a.s. andlitið í sjóinn. Við deildum hóteli með Hollendingum og Rússum.

IMG_3739

 

IMG_3764

 Heimamenn reyndu sífellt að tala við okkur rússnesku eða sænsku - en við svöruðum bara á frönsku. Hurghada-bærinn er reyndar sérstaklega ljótur. Í samanburði gæti Hamraborgin í Kópavogi farið á Unesco-lista.

IMG_3649

Þegar við komum til baka til Brussel var komið haust (og þessir vitleysingar hræðru meira en að segja í klukkunni svo nú munar bara einum tíma á föðurlandinu og Belgíu) og laufin eru að flýja tréin. Okkur til mikillar skemmtunar fengum við Bubba vin KK í 4 daga heimsókn á meðan foreldrar hans voru í London. KK og Bubbi sýndu gríðarlega hjólabrettatakta og tóku Tómas með út að leika (myndir koma síðar).

Annars er Hjördís komin með iphone, svo hún mun víst ekki tala mikið við restina af fjölskyldunni næstu daga (hún átti sko ammæli). Það ætti þó að reddast þar sem Tómas var sendur út í búð í morgun að kaupa mjólk og ost. Í búðinni var gefið að smakka Grimbergen bjór og góðan ost - auk þess sem sem maður fékk 1,5 lítra af Grimbergen gæðabjór og glas ef maður keypti tvær venjulegar kippur. Að sjálfsögðu kom Tómas því heim með 4 lítra af bjór með mjólkinni - ekki slæmt að búa í Belgíu.


Tekið fram úr á 150

IMG_3478Eins og fleiri helgar fór KK til útlanda að keppa í fótbolta á föstudaginn. Hann keyrði með hinum ISB raiders krökkunum í 6 tíma til Frankfurt þar sem þau kepptu á móti Frankfurt International School. Niðurstaða ferðalagsins var eitt jafntefli og eitt tap - sem var víst ásættanlegt þar sem Frankurtararnir voru eldri en öðlingarnir úr ISB. KK stóð sig eins og hetja, er varnarjaxl sem fær þó að stundum að spila á miðjunni. Við hjónaleysin skelltum okkur á eftir fótboltakrökkunum. Keyrðum á Volvonum til Frakkafurðu þar sem við borðuðum besta sushið hingað til á pínulitlum stað með fullt af japönum og drukkum stóran bjór og radler í turni (alvöru gæða þýskum turni). Við horfðum svo á fótbolta á laugardagsmorgninum með foreldrum sem vildu tala um bókamessu og íslensk efnahagsmál. Vorum ekki alveg viss hvort var ofar á vinsældalistanum hjá okkur (en allir virtust sehr messuspenntir yfir íslenskum bókum, forsetanum og öllu því sem fylgir). 

 

IMG_3532

Á leiðinni niður eftir er hámarkshraðinn stundum 130 og stundum bara eins hratt og þú þorir. Á einum svoleiðis kafla var Tómas stífur við stýrið á 150 þegar múslímsk slæðukona kom askvaðandi með blikkandi ljós og flaut þar sem Tómas var víst að keyra allt of hægt - komst varla úr sporunum á þýskan mælikvarða. Næsta föstudag keppa Raiders svo í Lúxemborg og svo er lokamótið í París um miðjan nóvember. Feðgarnir eru annars í vikulegum fótbolta með íslenskum köllum á sunnudagsmorgnum. KK leggur mikla áherslu á að Tómas verði honum ekki til skammar. Tómas reynir að verða við því - en það tekst ekki alveg alltaf. Til þess að uppfylla íslenska tilkynningaskyldu þá tilkynnist hér með að veðrið er gott. Sól og 14 gráður yfir daginn. Ekki amalegt það.

IMG_3573

 IMG_3554


Amma og afi í heimsókn frá Usbekistan

Amma og afi á Flókó (einnig þekkt undir nafninu Mapa) komu í heimsókn á laugardeginum fyrir viku. Brussel var víst aðeins og stutt frá Íslandi svo þau millilentu í Uzbekistan og London á leiðinni - bara til þess að gera þetta spennandi. Þau stóðu sig líka svona rosalega vel og komu með sumarið - 25 gráður og sól upp á alla daga svo þau geta drukkið morgunkaffið sitt á norðursvölunum og kvöldbjórinn á suðursvölunum og allir sáttir.

img_3460.jpgimg_3485.jpg

Á sunnudaginn kíktum við með þeim til Brugge (þar sáum við og fengum að snerta blóð Krists - KK þurfti að fara tvisvar þar sem hann var svo upprifinn að hann gleymdi að horfa á blóðið þegar hann fékk að snerta glasið sem það var í). næst er bara að horfa á stórmyndina In Bruges. Þau eru svo búin að arka um Brussel og hafa eins og aðrir gestir fengið að kynnast belgískum bjór. Um helgina ætlum við svo í bíltúr, gistum m.a. í Ardennafjöllunum þar sem við ætlum að kíkja á stórborgirnar Durbuy og Dinant (þar sem Stebbi Magg fékk besta mat í sögu Belgíu).

img_3488.jpg

Lífið gengur annars sinn vanagang. Við reynum að forðast nágrannana þar sem KK þarf að æfa sig á trompetinn a.m.k. hálftíma á dag. Hann nær bestum tón þegar hann spilar rosalega hátt - þá meina ég af öllum krafti. Þetta kemur hratt hjá einkasyninum og allir í fjölskyldunni eru jafnánægðir með að hann hafi ekki valið fiðlu (sérstaklega þar sem það er ekki alveg hægt að spila svona hart á fiðlu).

img_3432.jpg

Hjördís er við það að klára fyrsta mánuðinn í frönskunni og stefnir á annan mánuð þar sem hún verður amk 21 tíma á viku - svo fer henni að dreyma á þessu hrognamáli og þá verður svo sannarlega gaman á Moonensstræti. Tómas reynir á meðan að koma þjóðinni - eða amk gjaldmiðlinum inn í ESB. Kannski Ísland verði þá eina evruríkið eftir einhverja mánuði, en við förum ekki að láta það hafa áhrif á heimilislífið.


Bonn Voyage

Þar sem við búum í Evrópu skelltum við okkur til tveggja nýrra landa um helgina. Einkasonurinn var að spila fótbolta við International School of Bonn í Bonn. Hann fór með rútu og gisti hjá strák úr hinu liðinu og skemmti sér stórvel. Við vildum hins vegar ekki senda einkasoninn til útlanda einan svo við slógumst í för og fórum til Bonn á nýja bílnum (sem heftur fengið hið konunglega nafn Karl Gústaf (smá upgreid frá vini okkar Hondu-Ragnari).

 img_3413_1110209.jpg

Á leiðinni til Bonn keyrir maður í gegnum einhvers konar sepa af Hollandi sem otar sér á milli Belgíu og Þýskalands (þannig náðum við tveimur löndum). Í Bonn vann barnið einn leik og tapaði einum.

Við fengum frábæran indverskan mat og Bier von Fassss - ótrúlegt hvað Þjóðverjinn kann að hella bjór í glas. Hápunktur ferðarinnar var þó þegar við sáum gamlan Þjóðverja með risastórt yfirvaraskegg kenna barnabarninu sínu gæsagang á Rínarbökkum.

Þessi vika verður sérstaklega spennandi á Rue Moonens. Hjördís er ennþá í 15 tíma á viku frönskukennslu hjá Alliance Francaise - og bætir nú við sig sex tímuma á viku í frönsku fyrir útlendinga í háskólanum í Brussel. Eftir sex tíma frönsku á þriðjudag verður kalt hvítvín og funheitt súkkulaði á borðum.


Vaknað í Brussel

Síðustu tíu daga hafa allir á Rue Moonens þurft að vakna (eldsnemma) í Brussel. KK er búinn að vera í skólanum í 10 daga og Hjördís byrjaði að læra frönsku á mánudagsmorgun - nú situr hún bara í sófanum og telur upp á hundrað og segir stöðugt Je M'appelle Hyuurdís (og hún verður fljót að læra stafófið þegar hún þarf að stafsetja Ágústa Hjördís Kristinsdóttir).

img_3399.jpgimg_3391.jpgÁ laugardaginn skelltum við okkur á ströndina í 30 gráðu hita með Jónda og Siggu - og fengum lánaðan Bubba, íslenskan vin KK úr skólanum. Hittum þar líka íslenska fjölskyldu sem býr rétt hjá okkur sem á m.a. strák sem er ári eldri en einkasonurinn. Belgíska ströndin er stórfín - engin Costa del Sol, en stundum sól og alltaf sandur. Nýi bíllinn passar sérstaklega vel í svona ferðalög. Fyrir áhugasama um uppeldið á heimilinu þá þurftu Jóndi og Sigga bæði að gera fjöldan allan af armbeygjum - en eru þó aðeins háldrættingar miðað við sorakjaftana Hrefnu og Erik. 

 img_3420.jpgimg_3415_1108340.jpg

Fyrsti leikur ISB Raiders var í þriðjudag. Úrslitin skipta ekki máli - amk ekki í dag - en KK (nr 16) stóð sig vel. Það eru 16 krakkar í liðinu (þar af 2 stelpur) og þjálfari með upphandleggina að láni frá Magnúsi Ver. Liðið mun á næstu vikum ferðast til Bonn, Frankfurt, Haag og Lúxemborgar að keppa. Við ætlum að reyna að fara í ferðalag og sjá einkasoninn spila.

 


Fyrsta helgarfríið

Fyrsta skólavikan er nú að baki hjá Kristni Kára. Okkur öllum til mikillar ánægju finnst honum mjög gaman í skólanum. Hann lærir á "netta" tölvu sem allir krakkarnir hafa á borðunum sínum og krakkarnir eru allir "vinalegir og góðir". Nú er bara að byrja trompletnámið og eftir það höfum við ekki miklar áhyggjur. KK er þó einstaklega spenntur fyrir því að fara án okkar til Þýskalands í vor þar sem bekkurinn verður nokkra daga í Trier. 

Á þriðjudag og miðvikudag mun KK svo reyna að komast í fótboltalið skólans (ISB Raiders). Tvær æfingar munu skera úr um það hvort hann komist í liðið í ár eða ekki. Við höfum verið að mæla út hin börnin síðustu daga og vonum bara að Ameríkanarnir kunni ekki mikið í fótbolta. 

Í öðrum fréttum er það helst að bíllinn okkar er loksins kominn (ekki gamli rauður heldur glænýr svartur bíll). Nú þurfa hinir bílarnir að fara að vara sig - ekki síst þegar Hjördís þýtur í morgunkaffi með hinum amerísku mömmunum (hún hefur reyndar ekki enn samþykkt að mæta, en hún er undir miklum þrýstingi). Daði, Óli og Erik eru hjá okkur um helgina. Vonandi komumst við með þeim á nýja bílnum á ströndina á sunnudaginn, þá á víst að gera hlé á þrumuveðrinu með sól og sumri. Setjum vonandi myndir inn eftir það.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband