28.9.2011 | 20:29
Amma og afi í heimsókn frá Usbekistan
Amma og afi á Flókó (einnig þekkt undir nafninu Mapa) komu í heimsókn á laugardeginum fyrir viku. Brussel var víst aðeins og stutt frá Íslandi svo þau millilentu í Uzbekistan og London á leiðinni - bara til þess að gera þetta spennandi. Þau stóðu sig líka svona rosalega vel og komu með sumarið - 25 gráður og sól upp á alla daga svo þau geta drukkið morgunkaffið sitt á norðursvölunum og kvöldbjórinn á suðursvölunum og allir sáttir.


Á sunnudaginn kíktum við með þeim til Brugge (þar sáum við og fengum að snerta blóð Krists - KK þurfti að fara tvisvar þar sem hann var svo upprifinn að hann gleymdi að horfa á blóðið þegar hann fékk að snerta glasið sem það var í). næst er bara að horfa á stórmyndina In Bruges. Þau eru svo búin að arka um Brussel og hafa eins og aðrir gestir fengið að kynnast belgískum bjór. Um helgina ætlum við svo í bíltúr, gistum m.a. í Ardennafjöllunum þar sem við ætlum að kíkja á stórborgirnar Durbuy og Dinant (þar sem Stebbi Magg fékk besta mat í sögu Belgíu).

Lífið gengur annars sinn vanagang. Við reynum að forðast nágrannana þar sem KK þarf að æfa sig á trompetinn a.m.k. hálftíma á dag. Hann nær bestum tón þegar hann spilar rosalega hátt - þá meina ég af öllum krafti. Þetta kemur hratt hjá einkasyninum og allir í fjölskyldunni eru jafnánægðir með að hann hafi ekki valið fiðlu (sérstaklega þar sem það er ekki alveg hægt að spila svona hart á fiðlu).

Hjördís er við það að klára fyrsta mánuðinn í frönskunni og stefnir á annan mánuð þar sem hún verður amk 21 tíma á viku - svo fer henni að dreyma á þessu hrognamáli og þá verður svo sannarlega gaman á Moonensstræti. Tómas reynir á meðan að koma þjóðinni - eða amk gjaldmiðlinum inn í ESB. Kannski Ísland verði þá eina evruríkið eftir einhverja mánuði, en við förum ekki að láta það hafa áhrif á heimilislífið.
19.9.2011 | 20:20
Bonn Voyage
Þar sem við búum í Evrópu skelltum við okkur til tveggja nýrra landa um helgina. Einkasonurinn var að spila fótbolta við International School of Bonn í Bonn. Hann fór með rútu og gisti hjá strák úr hinu liðinu og skemmti sér stórvel. Við vildum hins vegar ekki senda einkasoninn til útlanda einan svo við slógumst í för og fórum til Bonn á nýja bílnum (sem heftur fengið hið konunglega nafn Karl Gústaf (smá upgreid frá vini okkar Hondu-Ragnari).
Á leiðinni til Bonn keyrir maður í gegnum einhvers konar sepa af Hollandi sem otar sér á milli Belgíu og Þýskalands (þannig náðum við tveimur löndum). Í Bonn vann barnið einn leik og tapaði einum.
Við fengum frábæran indverskan mat og Bier von Fassss - ótrúlegt hvað Þjóðverjinn kann að hella bjór í glas. Hápunktur ferðarinnar var þó þegar við sáum gamlan Þjóðverja með risastórt yfirvaraskegg kenna barnabarninu sínu gæsagang á Rínarbökkum.
Þessi vika verður sérstaklega spennandi á Rue Moonens. Hjördís er ennþá í 15 tíma á viku frönskukennslu hjá Alliance Francaise - og bætir nú við sig sex tímuma á viku í frönsku fyrir útlendinga í háskólanum í Brussel. Eftir sex tíma frönsku á þriðjudag verður kalt hvítvín og funheitt súkkulaði á borðum.
6.9.2011 | 20:56
Vaknað í Brussel
Síðustu tíu daga hafa allir á Rue Moonens þurft að vakna (eldsnemma) í Brussel. KK er búinn að vera í skólanum í 10 daga og Hjördís byrjaði að læra frönsku á mánudagsmorgun - nú situr hún bara í sófanum og telur upp á hundrað og segir stöðugt Je M'appelle Hyuurdís (og hún verður fljót að læra stafófið þegar hún þarf að stafsetja Ágústa Hjördís Kristinsdóttir).
Á laugardaginn skelltum við okkur á ströndina í 30 gráðu hita með Jónda og Siggu - og fengum lánaðan Bubba, íslenskan vin KK úr skólanum. Hittum þar líka íslenska fjölskyldu sem býr rétt hjá okkur sem á m.a. strák sem er ári eldri en einkasonurinn. Belgíska ströndin er stórfín - engin Costa del Sol, en stundum sól og alltaf sandur. Nýi bíllinn passar sérstaklega vel í svona ferðalög. Fyrir áhugasama um uppeldið á heimilinu þá þurftu Jóndi og Sigga bæði að gera fjöldan allan af armbeygjum - en eru þó aðeins háldrættingar miðað við sorakjaftana Hrefnu og Erik.
Fyrsti leikur ISB Raiders var í þriðjudag. Úrslitin skipta ekki máli - amk ekki í dag - en KK (nr 16) stóð sig vel. Það eru 16 krakkar í liðinu (þar af 2 stelpur) og þjálfari með upphandleggina að láni frá Magnúsi Ver. Liðið mun á næstu vikum ferðast til Bonn, Frankfurt, Haag og Lúxemborgar að keppa. Við ætlum að reyna að fara í ferðalag og sjá einkasoninn spila.