Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Lúther og þrælarnir

20% bandarískra háskólanema vita ekki hver Martin Lúther King var. Margir þeirra eru sannfærðir um að hann hafi frelsað þrælana. Jább, bara svona á meðan hann var var í leikhúsi með Lincoln.

Vísindi, ís og ónýtar appelsínur

vísindi
Á mánudaginn var Martin Lúther King dagurinn (fyrir þá sem eru fyrir ættfræði þá var hann hvorki skyldur Martin Lúther né Larry King). Þá er frí í Bandaríkjunum. Við tókum okkur upp og fórum í ferðalag, alla leiðinni á Vísindasafnið (Exploratorium). Þó að við séum komin með lest fyrir utan húsið þá tókum við strætó - sem Hjördís er alltaf jafnánægð með. Safnið sem er hinum megin í bænum er í raun stór geymir fullur af dóti sem krakkar mega leika sér með, snerta og fikta í. Þeir sem þekkja Kristinn Kára vita að þar líður honum vel. Á leiðinni heim stoppuðum við síðan á North Beach (sem er ítalska hverfið) og fengum okkur pasta og ís, jafnvel besta ís í heimin. Arnold Swartzenegger varði hins vegar deginum á hamfarasvæðum Kaliforníu eftir kulda helgarinnar. Ónýtar appelsínur eru um allt og fólk er miður sín - það er þó lán í óláni að vínið virðist hafa sloppið óskemmt.

Ísöld?

Í gær fjölluðu allir fréttatímar hér um kuldakastið sem nú skekur San Francisco og nágrannabæi. Fyrsta frétt á einni stöðinni var: "sést hefur til fólks nota hanska til þess að halda á sér hita". Já, þá þegar fólk er byrjað að hylja hendurnar þá vitum við að það er kalt.

Af hverju kveikti maðurinn í sér?

Í gær var stóri dagurinn - stórir bílar keyrðu yfir litla bíla og gerðu það vel. Eins og kynnirinn sagði við upphaf leikanna þá er það að fá að njóta Monster Truck Jam eitt af þeim frelsum sem gerir Bandaríkin svo frábær. Kannski við hefðum átt að mæta til Írak og Afganistan með stóra bíla að keyra yfir litla bíla til þess að sýna þeim fram á hversu mikilvægt frelsið er. Þá hefðu Talibanarnir og Saddam örugglega verið hraktir frá völdum með kústsköftum og kökukeflum.

Annars var hafnaboltaleikvangurinn stútfullur og allir í feiknastuði. Tómas og Kristinn Kári héldu með the Grave Digger (sem hefur verið í bransanum í 25 ár). Hann vann þó ekki. San Francisco tapaði svo líka fyrir L.A. í fjórhólakappi - þá fyrst varð KK reiður. Áhorfendur þekktu greinilega bílana og ökuþórana, sérstaklega frúin fyrir aftan okkur sem öskraði svo hátt og var svo spennt að snjóþvegnugallabuxurnar og krumpujakkin rifnuðu næstum því utan af henni. Hápunktur kvöldsins var þó þegar einhverjum manni var lyft í 30-40 metra hæð. Þar kveikti hann í sér og hoppaði niður (á útblásna dýnu fyrir neðan). Lýðurinn ærðist af hrifningu, enda ekki á hverjum degi sem menn kveikja í sér og láta sig falla logandi um tugi metra. Kristinn Kári tók þessu þó með stóískri ró og spurði "já, en af hverju kveikti maðurinn í sér?". Honum fannst svörin sem hann fékk frekar óskýr. Annars eru komnar myndir á myndasíðuna okkar af þessum atburði og sjón er sögu ríkari. Þar má m.a. sjá skólann hans KK sem hann er hæstánægður með, þó að hann sé ekki enn kominn í mandarínutímana.


Ekki lengur ömurlegur

Eftir að hafa dregið drenginn í skólann í morgun biðu allir spenntir eftir að sjá hvernig annar í skóla hefði gengið. Skólastrákurinn kom hlaupandi út skælbrosandi - sannfærður um að þetta hafi verið góður skóladagur. Skólinn ekki lengur ömurlegur, heldur alveg ágætur og allt bara mjög fínt. KK lærði líka eitt nýtt - að slá í bolta með priki, það var rosalegt. Honum fannst nú líka ekki síður merkilegt að þetta skyldi vera íþrótt sem allir krakkarnir kunnu. Nú á að kaupa prik, bolta og hanska, senda barnið svo í hafnaboltabúðir og gera foreldrarana ríka. Á leiðinni heim úr skólanum var svo manneskja í strætó í sumarlegum sandölum og galladragt með þetta fína permenent, varalit og skartgripi. Flestir mundu kannski halda að þetta hafi verið heldri kona í leiðinni í te. En ónei, hér í San Fran gengur þessi útbúnaður víst alveg eins fyrir karlmenn (kannski líka á leiðinni í te). Maður má kannski ekki borða hval, en að ganga í kvenmansfötum er svo sannarlega ekkert tiltökumál.

Fyrsti skóladagurinn í borg óttans

Nú er fyrsti skóladagurinn hans Kristins Kára búinn. Við sögðum bara bless um leið og hann hafði hitt kennarana og fyrstu krakkana. Þá þurftum við að yfirgefa svæðið og halda okkur fyrir utan læsta hliðið til klukkan þrjú. Kennararnir sögðu að hann hefði staðið sig vel - en orðið aðeins minni í sér eftir hádegi og spurt eftir mom and dad. Kiddi var ekki alveg sammála kennurunum um ágæti dagsins. Þvert á móti hélt hann því fram að fóstrurnar væru ömulegar og skólinn, honum var lýst með sömu orðum - aðalvandamálið var að hann fékk ekki að lita, enda kunni hann ekki að segja blað. Hann var einna ánægðastur með að það eru sérstök stelpuklósett svo það verði ekki neitt rugl. Fýlan gekk þó fljótt yfir og hann var orðinn hinn ánægðasti áður en við komumst heim. Hann er þó enn sannfærður um að skólinn sé ömurlegur (aðeins búinn að gefa sig með kennarana) og að hann ætli ekki þangað aftur. Atvinnumennirnir segja að þetta séu venjuleg viðbrögð og að þetta gangi örugglega hratt yfir. Það eru 23 krakkar í bekknum á aldrinum 5 til 7 ára, þar af einn íslenskur sem kemur úr jólafríi í næstu viku. Með bekknum eru tveir kennarar. Báðar ömmulegar og góðar. Dagurinn versnaði nú aðeins á leiðinni heim úr skólanum þegar húsbóndinn varð fyrir árás - og jafnvel að það hafi örlað á sams konar tárum og þegar Kristinn sá mömmu sína eftir fyrsta skóladaginn. Tómas var eitthvað annars hugar á leið yfir gangbraut og gekk beint í flasið á gamalli konu með staf. Sú gamla tók afsökunarbeiðni útlendingsins ekki gilda og sló hann í sköflunginn með stafnum. Þá var nú ekki um annað að ræða en að drífa sig heim, enda Hjördís eini fjölskyldumeðlimurinn í ferðahæfu ástandi. Um næstu helgi verður húsmóðirin viðruð fyrir vorið. Stefnan er tekinn á þjóðaríþrótt Bandaríkjamanna, Monster Jam Trucks, eða eins það heitir á íslensku: risastórir bílar að keyra yfir litla bíla - ekki amalegt menningarkvöld það.

Í Bandaríkjunum borgar það sig að eiga börn

Loksins getum við byrjað að láta Kristinn Kára vinna fyrir okkur - við sem héldum að við þyrftum að bíða a.m.k. í 15 ár í viðbót. Við vorum á leikvelli í gær þegar við fáum miða í hendurnar og okkur boðið að koma með drenginn í áheyrnaprufur fyrir auglýsingar. Og það fylgdi frír hádegismatur með (ég benti samt konunni ekki á það sem Hannes Hólmsteinn segir um hádegismat). Við fórum samt ekki. Gerum það kannski næst og fáum hann til að auglýsa núðlusúpur. Smáfjölskyldan fór líka í bíó um helgina. Fengum boðsmiða á forsýningu á Arthur og hin ósýnilegu. Vorum komin í röð fyrir kl. 10 um morgun. Það var samt ekki erfitt þar sem við vorum að venju vöknuð upp úr kl. 6. Annars er sól og sumar í San Fran. Við vorum m.a. í stuttbuxum í gær þegar við fórum í fótbolta. Nágrannar okkar voru þó í úlpum og með húfur - en það er þeirra vandamál. Tómas fann líka bjór sem bragðast alveg eins og malt. Keypti kassa. Á mánudagsmorgun verður fyrstu skóldagur hans Kristins Kára í Montessori House for Children. Foreldrar mega ekki vera með svo við þurfum að skilja drenginn eftir með feita indverska manninum og enskumælandi kennurunum. Vonandi gengur það vel.

Dvergur, Indverji og foreldrapróf

Í gær fórum við út í búð. Það er svo sem ekki í frásögu færandi nema að Kristinn Kári benti á mann og sagði: "sjáðu, hann er minni en hundurinn sinn. Eru í alvörunni til dvergar í Bandaríkjunum." Eftir smá eftirgrennslan og skamm fyrir að benda fundum við manninn. Hann var á bak við hundinn sinn.

Í dag fórum við svo í foreldraviðtal í skólanum hans Kristins Kára. Þar tók vinalegur feitlaginn Indverji á móti okkur, vóg og mat okkur hæf til þess að eiga barn í skólanum sínum. Sá indverski fór aðeins yfir námsskrána og tók það fram að sjálfsögðu fara börn ekki út að leika sér þegar það rignir - enda aldrei að vita hvað gerist þegar börn blotna. Nú þarf Tómas að smyrja fyrir tvo námsmenn. KK verður nú Montessori barn, sex tíma á dag frá og með 8. janúar. Í skólanum er börnum 2-7 ára boðið upp á barnvæna aukatíma á borð við spænsku, frönsku og mandarín. KK langar aðallega að læra mandarínu. Við sjáum til hvað við gerum - kannski að við byrjum á enskunni. Skólinn er lítill, fáir nemendur á hvern kennara og krakkar frá öllum heimshornum. Hann verður með öðrum íslenskum strák í bekk sem KK er búinn að velja sem vin sinn - enda segist hann ekki þekkja alla hina útlendingana.


Að marka völlinn

Tómas og Kiddi hafa verið að æfa sig í fótbolta í góða kaliforníuveðrinu. Við hittum annan lítinn strák í gær sem vildi ólmur prófa að spila svona evrópskan fótbolta. Sá ameríski var ekki alveg með reglurnar á hreinu, varð eitthvað ringlaður og pissaði á markið. Við fluttum okkar þá á næsta grasbala. Sá ameríski elti, náði boltanum og settist á hann. Sá varð nú nokkuð reiður þegar KK náði boltanum aftur og skammaði útlendinginn fyrir að leika hænu með hann. Þá var náttúrlega bara eitt fyrir nýja vininn að gera - taka niður um sig buxurnar og pissa líka á völl númer tvö. Kristinn Kári varð hoppandi illur þegar sá útlenski hló pissandi á fína fótboltavöllinn. Við höfum strikað þennan út af mögulega vinalistanum (jafnvel að Kristinn Kári sem kominn með óvinalista - mjög í líkingu við þann sem Nixon var með). Annars er allt rólegt á vesturvíðstöðvunum. Hjördís byrjuð aftur í skólanum og stefnir hraðbyri á að verða bráðasti hjúkrunarfræðingur í heiminum. Kristinn Kári les allt sem hann festir hönd. Hann byrjar í skólanum 8. janúar. Foreldrarnir fara í viðtal á fimmtudag - nú er bara að pressa jakkafötin og hafa sunnudagskjólinn tilbúinn. Tómas hefur einnig sett sér það markmið að koma heim með færri ameríkukíló en síðast. Ameríka gerir þó sitt til þess að gera heimavinnandi húsfaðirinn ávalan og fínan - nú er bara að reyna að forðast freistingarnar.

Áramót

Eftir sextán tíma ferðalag daginn fyrir gamlársdag var ekki mikill kraftur í mannskapnum við áramótin. Við komum 175 kg af farangri á sinn stað og erum enn að jafna okkur eftir það. Við fórum í verslunarleiðangur til Kínverjanna á gamlársdag í leit að kínverjum. Keyptum nokkra og elduðum svo góðan mat. Kristinn Kári sofnaði fyrir skaup og varð ekki vakinn fyrir eldsnemma á nýarsdag. Hjónaleysin höfðu það ágætt og rétt náðu að lafa vakandi fram yfir miðnætti. Við horfðum á flugeldasýninguna yfir Flóabrúnni og á skaupið í gegnum galdra internetsins. Nú er bara að nýta nýársdag í að horfa á fréttaannála, smyrja nestið ofan í Hjördísi sem byrjar í skólanum annan janúar.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband