Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
8.2.2007 | 05:33
Tuln light
Tómast kom, sá og sigraði í ökuprófi friskóborgar í dag. Það var allt reynt: upp brekkur, niður brekkur, hundar, kettir og gamalt fólk á götunum en allt kom fyrir ekki. Tómas er því kominn með bílpróf (aftur). Hann var reyndar nokkuð ringlaður þegar prófdómarinn (kínversk kona á miðjum aldri) sagði "prease tuln light". Það er orðið mikil spenna í fjölskyldunni með að eignast bíl - hver strætóferðin á fætur annarri ýtir undir áhugan á einkabílnum. Í gær var Tómas í strætó á leiðinni skólann þegar tveir stórir menn byrjuðu að slást. Bílstjórinn ákvað þá að eina lausnin væri að stöðva vagninn og ganga út. Hann bara hvarf og kom ekki aftur. Fréttir hér snúast nú aðeins um tvennt. Í fyrsta lagi að vinsæli borgarstjórinn okkar hafi óvart sofið hjá eiginkonu besta vinar síns (og bætti því svo við að hann væri alki). Og í öðru lagi að geimfari hafi keyrt yfir Bandaríkin með bleyju til þess að reyna að drepa kærustu ástmanns síns. Annars byrjaði að rigna í dag, sem er verra.
6.2.2007 | 01:17
Christinn eða Kristinn?
Kristinn Kári er á mjög alvarlegu "af hverju" stigi. "Af hverju er maðurinn að biðja um pening", "af hverju rötum við heim", "af hverju er þessi kall í kjól" o.s.frv. Hann er líka búinn að finna eitt mjög merkilegt út. Þegar hann er í skólanum, eða skrifar nafnið sitt bara með litlum stöfum þá heitir hann Christinn - hann vill þó enn að við köllum hann Kristinn. Honum finnst ekkert af þessu skrítið, enda eru um 18 tungumál töluð í skólanum og flestir skólafélagar hans tala a.m.k. tvö. Strákarnir horfðu annars á Superbowl (eða superballs eins og húsmóðirin sagði) á sunnudaginn og Hjördís lærði og lærði. Öll umferð datt niður og stemmningin var eins og eurovisionkvöldi á Íslandi - enda sagði kynnirinn fyrir leikinn "this is the biggest sports event in the world" (og ekki lýgur sjónvarpið).
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2007 | 17:10
einn, tveir og hjúkra
Hjördís fer í miðannarpróf í vikunni - og því mikil spenna á heimilinu. Tómas og Kristinn Kári fóru í bíltúr með Eggerti og Degi yfir Golden Gate brúna í gær. Fórum yfir til Tiberon, sem er nálægt Sósalító (fyrir þá sem þekkja til hérna við flóann eða hafa farið að heimsækja Lars Ulrik á heimaslóðir hans). Fórum í fótbolta og fengum okkur ís. Tómas prófaði hjólabretti - og já það er bannað að hlæja. Það var fínt veður og allir kátir - enda ekki annað hægt á góðum degi við flóann. Hérna eru rosalega flottir leikvellir út um allt. Ekki bara hin heðbundna ferna af stálrennibraut, rólum, vegasalti og sandkassa. Í dag (sunnudag) er Superbowl knattleikurinn. Strákarnir stefna líka að því að láta sig hverfa og horfa á leikinn til þess að leyfa Hjördísi að æfa sig fyrir bráðahjúkrunarprófin. Tómas stefnir nú að því að fara á tónleikahátíðina Coachella í lok apríl. Þar munu Sonic Youth, Interpol, Björk ofl. ofl. spila músík í eyðimörkinni í þrjá daga. Fyrir þá sem hafa áhuga þá getið þið kíkt á Coachella.com.
2.2.2007 | 07:06
Engum að treysta, ekki einu sinni Bette Midler
Fræga fólkið á heima í Bandaríkjunum alveg eins og sést í sjónvarpinu. Draumum okkar var svarað þegar Bette Midler kom og söng á bílastæðinu okkar (þar sem við munum í bráðum geyma okkar eigin bíl í stað þess að dást að öllum öðrum) fyrir krabbameinssjúk börn. Við vildum ekki vera fyrir börnunum svo við vorum bara inni og misstum af herlegheitunum. Annars er kalt hérna við flóann - eins gott að við eigum ekki blæjubíl. Bíllinn verður með þaki svo þokan og heimilslausa fólkið sleppi ekki inn. Hins vegar taka Tómas og Kristinn Kári núna gamlan sporvagn hluta af leiðinni í skólann og hann er ekki með þaki yfir sér öllum - við reynum því að forðast þokuna, humarinn og heimilsleysingjana. Annars tók Tómas upp veskið sitt á almannafæri í dag. Þá kom heimilslaus kona (ekki Bette Midler) að honum og sagði "watch out, the blacks could take it from you" - þannig var nú það. Engum að treysta.
30.1.2007 | 02:57
Já, en er ekki hægt að taka bílpróf á íslensku
Kleppur er hress og heilbrigður staður miðað við Umferðastofuna í San Francisco, þar sem við fórum í myndatöku og próftöku í dag. Ein ásísk kona gekk um og öskraði "I have wait thlee and half months". Áhugi starfsmannanna á henni var eins og að hún hafi gengið þarna um gólfin mánuðum saman. Við fengum á endandum að taka skriflegt próf - gátum m.a. svarað hvort áfengi gerir mann betri eða verri ökumann - og stóðumst það með sóma (rétt slefuðum þó myndatökuna). Hins vegar vorum við í síðustu röðinni í 45 mínútur þar sem maður neitaði að fara úr röðinni nema að hann fengi að taka bílprófið á hebresku - enda ekki nema sjálfsagt að boðið sé upp á öll opinber próf á tungumálum smáríkja við Miðjarðarhafið. Honum var á endanum rutt úr röðinni af stórri blökkukonu (á alla kanta) með ljóst hár. Kristinn Kári var á meðan í fyrstu pössuninni sinni hjá Eggerti, Lindu og Degi. Við fórum svo öll á leikvöll þar sem sést yfir næstum alla borgina. Það þarf oft að hleypa þeim út að brenna orku eftir að hafa setið við skólaborðið í sex tíma. Þar voru hundar sem eiga skilið frekar að vera með bílpróf en margir þeirra sem tóku með okkur prófið í dag.
29.1.2007 | 06:08
Á ströndinn í besta hverfi Bandalíkjanna
Fórum á laugardaginn í heimsókn Richmond hverfið, sem það besta í Bandalíkjunum. Þar eru bestu veitingastaðirnir, bestu kaffihúsin og bestu leikvellirnir. Robin Williams býr líka þar ásamt Eggerti, Lindu og Degi (KK sagði reyndar að hann þekkti engann Degi). Við fórum á Kínaströndina (þar voru samt engir Kínverjar en hópur af strangtrúuðum gyðingum) og höfðum það mjög gott og fengum okkur mímósu í sólinni. KK lærði á brimbretti á ströndinni, undir dyggri handleiðslu fagmanns. Næst verður það alvöru bretti, svo bara júkaleilí, hawaiiskyrtur og hálsmen - þá verður þetta orðið almennilegt. Nú er verið að læra fyrir bandaríska bílprófið. Mikilvægt að muna að það má senda mann í sex mánaða fangelsi og sekta um $1000 fyrir að skilja dauðvona dýr eftir á þjóðvegi (og þar er sko ekki gert upp á milli dýra) - svo er alveg stranglega bannað að flauta á blint fólk. Við ætlum að reyna að sleppa því - en getum ekki lofað neinu. Myndir af atburðum helgarinnar munu birtast innan tíðar á Internetinu.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.1.2007 | 05:55
Hjólað og hjólað
Síðasta föstudag í hverjum mánuði safnast hjólalúðar í San Francisco (og fleiri borgum) saman og hjóla og hjóla um götur borgarinnar til þess að minna á sig með því að stoppa umferð. Tómas skellti sér með. Var sérstaklega töff á konuhjólinu hennar Hjördísar (þar sem strákahjólið er ennþá stolið). En eins og venjulega þá skiptir engu máli hvernig maður er, það er alltaf einhver skrítnari. Það var rignig svo það mættu bara nokkur hundruð manns, en venjulega eru þarna nokkur þúsund manns á hjólum. Þurfti bara að passa mig á að segja engum þarna að stærsti draumurinn minn er að eignast aftur bíl og hætta þessum strætóferðum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 04:07
Khaff Khalas
Jæja þá er Tómas kominn aftur í skóla. Er nú á hverjum degi í arabískutímum. Í tímunum eru langflestir arabar. Þeir sem eru það ekki eru mjög skrítnir. Hann verður svo líka í tímum um íran og sögu arabanna. Það ætti að henta. Nú stendur heimilið reyndar á haus því á mánudaginn verður tekið skriflegt bílpróf svo við getum gengið frá bílakaupum. Strætótinn sem við tökum á hverjum morgni minnir helst á hraðleiðina Kleppur-Kleppur og keyrir fram hjá hinu merka hverfi Tenderloin hérna í San Franfrisco (og það er víst bannað að kalla borgina Frisco). Tenderloin heitir eftir samnefndri steik en er hvorki safaríkt né seðjandi. Hverfið dregur hins vegar nafnið sitt af því að þær löggur sem voru sendar þangað á bannárunum fengu aukasteik í matinn því vaktin var svo hættuleg. Í fréttum er það annars helst að mysingurinn er að verða búinn. Góðar ömmur og aðrir mega endilega senda neyðabirgðir.
22.1.2007 | 04:38
Sól og sumar í San Francisco
Loksins, loksins. Við erum búin að bíða eftir sumrinu hér í Kalifórníu í allan janúar. Nú er það loksins komið með 16 gráðu hita og sól um helgina. Á laugardaginn fórum við á matarmarkaðinn við höfnina og buðum svo Íslendinga í mat. Það var mjög gaman. KK var jólaspenntur allan daginn fyrir því að fá einhvern til þess að leika við sig með allt dótið. Á sunnudeginum höfðum við það bara rólegt og fórum með KK á leikvöll. Tómas er annars að leggjast yfir landafræði Suður-Ameríku með aðstoð bjórtegunda, er að verða búinn með Mexíkó og er kominn til El Salvador.
20.1.2007 | 16:35
Allt að gerast
Nú er sko allt að gerast í ameríkunni. Hjördís er að verða innfædd og Kristinn Kári er byrjaður að læra arabísku. Tómas er að bera saman hinu ýmsu fæðutegundir frá Suður-Ameríku (bæði á föstu og fljótandi formi). Skólanum hennar Hjördísar fannst hún vera að eyða fullmiklum tíma heima hjá sér svo þeir réðu hana í vinnu. Frá og með næstu viku verður hún Teacher's Assistant (ís. kennarasleikja). Eftir að hafa verið í 150% vinnu í rúm tvö ár þá tekur frökenin nú að sér 10% starf, og það í skrifstofuvinnu. Við fengum líka tékkhefti í gær. Komumst þá að því að við kunnum ekki að skrifa svoleiðis. Þetta lítur bara út eins og skömmtunarmiðar frá haftaárunum. Þegar við spurðumst fyrir um millifærslur til þess að greiða reikninga á netinu þá sagði Bank of Amerika (ísl. Landsbanki Ameríku) að það væri svo sem allt gott og blessað. Millifærslan tæki þó 7-12 daga. Við fyllum nefnilega út á netinu og þeir senda svo viðkomandi ávísun. Jamm, þetta eru alvöru bankaviðskipti. Annars hefur verið tekið upp nýtt tímatal hér við Flóann. Tíminn er nú mældur í mysingsdollum (það er u.m.þ.b. ein dolla á viku). Húsbóndinn er búinn að henda sér út arabískunámið og verður nú daglega í tímum. Kristinn Kári situr og lærir með og er búinn að ná framburðinum frábærlega. Kannski það verði þá bara arabíska fyrst og mandarína svo.