Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

America's Next Top Model

Nýjar myndir á myndasíðunni.

Gleðilegt ár

Ári villisvínsins var fagnað með risastórri skúðgöngu á laugardagskvöldið. Bærinn var fullur af Kínverjum sem voru hverjum öðrum glaðari. Drekar og ljón í röðum. Síðan kom borgarstjórinn á opnum blæjubíl ásamt ungfrú Kaliforníu - verður ekki mikið amerískara en það.

Dagurinn byrjaði þó ekki með kínaskrúðgöngu. Við höfðum þá sleikt sólina (sem er heit) í Golden Gate garðinum með Eggerti, Lindu, Degi og Mímósu. Strákarnir léku sér í klifrugrindum, trjám og fótbolta á meðan þau fullorðnu unnu að beis-taninu og lærðu.


4,2 en húsið stendur enn

Hver dagur er öðrum meira spennandi hérna við Flóann. Eftir að hafa opnað 2 dollara hvítvínið með fimmtudagsmatnum tók húsið að hristast - og það var ekki vegna feita fólksins á efri hæðinni, ónei. Fyrsti jarðskjálfi smáfjölskyldunnar í San Fran reyndist 4,2 á Richter. Enginn Suðurlands- eða Dalvíkurskjálfti en nokkuð sterkur svona upp á fimmtu hæð hérna á landfyllingunni.

Annars var barnið sent í ástandsskoðun í dag - það er skylda fyrir alla nýbúa. Það var potað í hann á alla kanta og allir krókar og kimar skoðaðir. Svo var hann sprautaður með hinum ýmsu bóluefnum svo Kanarnir smitist ekki af hvalveiðiáhuga eða kvefi. Barnið tók þessu nokkuð vel - og varð hinn sáttasti þegar hann fékk límmiða í staðinn fyrir fjórar sprautur, pot og hlust. Á laugardaginn verður skrúðganga í tilefni af nýja ári Kínverjanna (eða kannski þeir ætli bara að fagna 3. mars af krafti - hann kemur líka bara einu sinni á ári). Það er ár svínsins - arabavinir Tómasara eru missáttir við það.


Kominn á internetið

Fjölskyldufaðirinn í San Francisco hefur fengið birta grein í kanadískri varnarmálabók - ekki amalegt það (var reyndar kallaður írskur sérfræðingur í kanadískum fjölmiðli). Áhugasamir geta skoðað bls. 60. Hér má finna bókina:
http://www.cda-cdai.ca/Vimy_Papers/Defence%20Requirements%20for%20Canada's%20Arctic%20online%20ve.pdf

Paradísarheimt

Við erum rétt að jafna okkur á Disney - þar sem allir eru glaðir, líka fljúgandi fílar (ekki fýlar) og menn í guffabúning. Smáfjölskyldan var rétt komin inn fyrir dyrnar þegar hún gekk frá ferð til Hawaii í júní - nánar tiltekið Maui (öðru nafni paradís). Verðum þar í viku, spilandi í júkaleilí og borðandi blóm með innfæddum. Nánari upplýsingar munu birtast síðar. Ferðin var sérstaklega pöntuð til þess að tryggja að smáfjölskyldan verði brún og sælleg þegar hún kemur heim - þar sem núna er grenjandi rigning í borginni við Flóann og sumarið er venjulega þokukennt.

Hamingjusamasti staður á jörðinni

"Erum við komin?" var spurt 873 sinnum á leiðinni niður I-5 til Disney-lands. Ferðin tók um sex tíma og var svo sannarlega þess virði. Við fórum í nætur-sund í góðum hita á föstudagskvöld. Við sólarupprás hrópaði Kristinn Kári "gleðilegan Disney-dag" og við tóku tveir dagar af Disney-brjálæði.

Disney-land er geðveikt að mati Kristins Kára. Þegar við komum inn í garðin hittum við Mikka og Guffa - og fengum myndir af okkur með þeim síðarnefnda. Við fórum í fullt af tækjum. Kristinn Kári var pínu-hræddur við sumt, t.d. sjóræningjatæki sem honum fannst samt mest töff. Tómas komst líka í Magic Mountain - rússíbana sem hann heyrði fyrst um árið 1988. Á leiðinni heim heyrðum við bara Disney-lög og sáum fljúgandi Dúmbó-fíla þegar við lokuðum augunum. Við munum líka setja inn myndir af ferðinni á myndasíðuna.


Þrjú fræknu verða fjögur: Öku-Tómas, Hjördís, KK og Ragnar

Það var ekkert bloggað í gær þar sem Tómas var óstarfhæfur eftir að hafa kastað bolta á strönd - augljóst merki um mikið líkamlegt atgervi. Annars var forsetadagurinn á mánudaginn. Þá fagna Bandaríkjamenn því að eiga forseta með því að mæta ekki í vinnuna eða skóla. Tómas þurfti þó að mæta að læra arabísku - þar sem arabarnir trúa ekki á forseta. Eftir arabískar sagnbeygingar fór fjölskyldan þó í bíltúr. Ökutómas tók þá kerruna (sem Kristinn vill að heiti Ragnar) upp á Twin Peaks, niður Lombard og yfir Golden Gate (glöggir lesendur hafa augljóslega tekið eftir því að bíllinn kemst sem sagt upp, niður og yfir). Við fórum yfir í Marin Headlands og í kaffi í Tiberon. Þaðan er útsýni yfir San Francisco og allt fljótandi í bleikum trjám. Svo fórum við í Trader Joe's - sem er eins konar verslunarupplifun. Þar er Beach Boys í útvarpinu og allt organic (en samt á 50% af því sem svona kostar í Whole Foods). Starfsmennirnir eru í surfarabolum og gefa krökkunum blöðrur. Sem sagt eins langt frá Bónus og mögulegt er.

SPF15 í febrúar

Lífið verður ekki mikið betra en það var hér í Kaliforníu um helgina. Á föstudaginn fór Hjördís með Lindu í mímósu og kínverska fótsnyrtingu í hádeginu. Við hittumst svo öll undir pálmatrjám í almenningsgarði með nesti - svo ekki byrjaði helgin illa. Um kvöldið borðuðum við 115. búrrítóið í þessum mánuði. Á laugardeginum var vaknað við sólarupprás. Við vorum komin á ströndina (Baker Beach) fyrir hádegi - enn og aftur með nest. Á ströndinni er útsýni yfir Golden Gate brúna og út á Kyrrahafið. Í sitt hvorum endanum á ströndinni eru nektarstrendur - en við héldum okkur bara í fötunum. Allan daginn var skínandi sól og sumar. Friskóþokan kom í 2 mínútur um miðjan dag en annars sleiktum við bara sólina í 25 gráðum og hlustuðum á júkaleileispil við ölduniðinn. Allir komnir með smá lit - bæði í andlitið og á sálina. Um kvöldið var horft á upptöku af Eurovisíon - ótrúlegt hvað internetið býður upp á. Fögnuðum sigri Eiríks Haukssonar á Kaliforníustræti (jább, alveg eins og fylkið). Á sunnudeginum fengum við svo bílinn. Ekki amaleg helgi í febrúar. Nýjar myndir komnar á myndasíðuna.

Þegar heilagur Valentínus gaf börnunum gjafir

Eins og þið vitið vafalítið flest þá er fjölskyldufaðirinn pápískur og dyggur stuðningsmaður móðurkirkjunnar. Hann var því sérstaklega ánægður með að Kristinn Kári var fræddur um heilagan Valentínus í skólanum. Börnin mættu öll með nammi og aðrar gjafir handa hvert öðru, alveg eins og heilagur Valentínus gerði í gamla daga. Barnið kom heim með fullan poka af nammi og kortum - m.a. Power Rangers sem óskuðu öllum til hamingju með daginn. Kristni Kára gengur annars vel í skólanum. Hann lærir ný orð á hverjum degi og er að reikna á fullu. Hann gengur líka um rímandi á ensku, t.d. blue - loo. Hann er líka að læra handahlaup í leikfimi, þó að Gummi frændi gæti haft eitthvað að segja um útfærsluna. Hjördís rústaði miðannarprófunum og Tómas liggur yfir arabískum sögnum eins og hann hafi aldrei gert neitt annað. Annars var verið að ganga frá kaupum á hóteli fyrir ferð í Disneyland (í Kaliforníu) eftir tvær vikur - svo KK ætti að vera ánægður þegar hann vaknar í fyrramálið. Annars erum við alltaf kát þegar fólk kommentar á síðuna, bara svo að við vitum að einhver er að lesa.

Hr. Livingstone - geri ég ráð fyrir

Við erum enn á lífi og ekki týnd í frumskógum Afríku - þó að blogg undanfarinna daga gæti gefið annað til kynna. Bloggskorturinn stafar líklega af því að við erum búin að koma okkur fyrir og dagarnir hér eru orðnir hversdags (en samt oftast með sól og lífrænt ræktuðum mat). Svo er Hjördís líka búin að vera í prófum - svo drengirnir haf verið hafðir úti við. Nú er svo komið að Tómas er orðinn betri í fótbolta en hann hefur nokkurn tímann verið áður (getur meira en að segja haldið bolta á lofti 5 sinnum). Á laugardaginn fengum við svo Eggert, Lindu og Dag (ekki B) Eggertsson í mat - ítalskar kjötbollur með meiru. Annars er þetta síðasta bíllausa vikan - og hvað sem hver segir þá er einkabíllinn það besta sem komið hefur fyrir mannkynið (þá þarf maður kannski ekki að leita eftir svörum við spurningum frá Kristni Kára á borð við "af hverju er maðurinn með bleikt hár" og "af hverju er dvergur í strætó"? sem betur fer var enginn dvergur með bleikt hár því þá hefðum við tekið leigubíl).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband