Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Einn besti kóngur sem Bandaríkin hafa átt

Kristinn Kári og Tómas eru að lesa Njálu saman (krakkaútgáfu með myndum). Eina vandamálið er að KK finnst Langbrók það fyndnasta orð sem hann hefur heyrt og því gengur lesturinn frekar hægt. Njála er sem sagt grínsaga. Í síðustu viku voru Tómas og Kristinn Kári sendir í klippingu. Þeir fengu klippingu nr.4 hjá kínakonunni. Nr.4 var aðeins styttri í þetta skipti svo Tómas lítur út fyrir að vera á leiðinni með landgönguliðunum til Írak (eða á skátafund).

Á laugardaginn fórum við á krakkasafn/leikvöll sem er undir Golden Gate brúnni í Marin County. Þar geta krakkar leikið sjóræningja (KK gróf upp 15 peninga) og læra allt um sjóinn. Fengum svo Maridith, vinkonu Hjördísar úr hjúkkurprógramminu, í mat á laugardaginn. Það var gaman. Svo er frídagur á mánudaginn, Martin Lúther King Day. KK lærði eftirfarandi um hann í skólanum: "hann var góður kóngur sem bandaríkjamenn áttu, svo var hann drepinn, með byssu". Við gátum litlu við það bætt. 


Hjúkrað hratt og örugglega

Hjördís er kominn með umsjónarkennara fyrir verknámið fram í júní (þangað til að við snúum aftur heim). Kennarinn sem heitir Angela Hackelsmithh er CNS (Clinical Nurse Specialist fyrir þá sem það ekki vita) við San Francisco General, sem er risastór spítali hér í allra næsta nágrenni við okkur. SFGH er spítali fyrir almenning, mjög ólíkur sveitaklúbbinum í Stanford sem Hjördís var á  fyrir jól. Þetta er aðaltraumacenterið fyrir San Francisco-svæðið (svona 5 milljónir manns). Hjördís mun hjúkra með Angelu, tala um tilfinningar sínar og stefnu í lífinu við hana (ekki eitthvað sem bráðasta hjúkrunarfræðingi Íslands finnst skemmtilegt) og taka þátt í að kenna almennum hjúkkum á San Fran Gen hvernig maður hjúkrar brátt.

Annars ætlum við að taka því rólega um helgina. Golden Gate park í dag og svo fær KK að stjórna dagskrá helgarinnar. Eftir vikur förum við svo að sjá Golden State Warriors á móti New York Knicks (í körfubolta) hérna hinum megin við brúna í Oakland (sem er ein af tíu hættulegustu borgum í Bandaríkjunum).


Walk eða work

Allt er byrjað að ganga sinn vanagang hérna í Ameríkunni. KK og Hjördís eru komin í skólann og Tómas situr sveittur við að bankast á hverjum degi og lærir arabísku þess á milli. KK er líka byrjaður aftur í sundi. Hann er að æfa sig fyrir Hawaii ferðina okkar um páskana. Annars voru mæðginin í þvottahúsinu í dag og hittu þar á gamla kínverska konu. Konan benti á þvottavélina, hummaði fram og til baka og sagði svo: "This walk wlong". Hjördís var pínulítið hissa og sagði svo: "sorry". KK tók þá fram fyrir hendurnar á mömmu sinni, horfði beint í augu konunnar og sagði: "That doesn't mean anything!!". Maybe you want to say: "This doesn't work... does not work.... not WALK."

Annars erum við að stefna á skíði við fyrsta tækifæri og jafnvel á NBA-leik eftir tíu daga (liðið okkar er Golden State Warriors). Annars er þoka og 10° hiti alla daga. Fleiri fréttir seinna. 

 Tómas var svo klipptur af konu í gær sem sagði: "mikið ertu heppinn að vera ekki amerískur, því við stöndum frammi fyrir svo mörgum vandamálum sem þið eruð laus við... eins og t.d. hmm. GLOBAL WARMING.


Komin heim í frelsið

Smáfjölskyldan flaug öll saman út til Bandaríkjanna á sunnudaginn. Tómas stoppaði í New York þar sem hann lærir að bankast út vikuna á meðan Hjördís og KK fórum áfram heim á vesturströndina. Ferðin gekk vel og Bandaríkin tóku á móti okkur fagnandi. Við erum sem sagt byrjuð aftur að blogga, svo nú má fólk endilega fara að lesa reglulega og kommentera eins og vindurinn.


Ferðamálaráð

Eins og venjulega þegar það eru gestir þá nýtum við tækifærið til þess að skoða borgina og fá gott að borða. Á milli þess sem Guðbjörg og Stína hafa reynt að rétta við bandaríska hagkerfið í búðunum þá höfum við dregið þær í tvo bíltúra. Annars vegar til Carmel og hins vegar til Napa/Sonoma, þar sem Tómas og Hjördís gengu í vínklúbb á stórri vínekru. Þeir sem koma að heimsækja okkur geta því nú smakkað vín frítt eins og þá lystir, www.ledson.com. Á þriðjudeginum borðuðum við svo á Cliff House, www.cliffhouse.com. Um kvöldið fórum við svo á Cirques du Soleil. Við sátum öll gapandi í þrjá tíma - versta er að KK er nú kominn með nýja stefnu í lífinu. Hann vill láta Gumma frænda kenna sér fimleika - alveg eins fimleika og mennirnir í nota í sirkus.  Kristinn Kári leikur svo kónginn í skólauppfærlsunni af þyrnirós á fimmtudaginn - daginn eftir fer öll hersingin heim til Íslands (nema Tómas, sem verður hér í viku í viðbót).

Gestir og gaman

Guðbjörg og Stína mættu til San Francisco í nótt. Kristinn Kári vakti fram að miðnætti til þess að taka á móti ömmu sinni. Hann hefur sjaldan verið jafnspenntur eða jafnánægður. Stefnan er tekin á Napa um helgina. Hjördís er búin í prófum og getur nú bara unnið í tanninu og jólagjöfunum.

Hvað myndi Jesús kaupa?

Við erum enn að vinna í tólf punda kalkúninum sem var eldaður á fimmtudaginn með Eggerti og Lindu. Gómsæta kvikindið verður í matinn fram í næstu viku. Annars mættu allir krakkarnir með mat í skólann hans KK á miðvikudaginn til þess að gefa öllum að smakka. Þegar við komum að sækja hann tók brosandi Ms. (fröken, ekki mótorskip) Mandy við okkur brosandi með orðunum: "I ate so much that I had to make myself throw up". Fleygari orð hafa ekki verið yrt um hátíðarandann hérna í Ameríku - nema þá kannski þegar Tómas skellti sér í búð í dag og var spurður á leiðinni inn "what would Jesus buy". (við stingum upp á skóm). Föstudagurinn er svo líka frídagur í Ameríku - eini sérstaki frídagurinn fyrir fólk að liggja á meltunni og versla. Við bökuðum okkur piparkökuhús - eða settum eitt slíkt saman, þar sem húsið og skrautið kom saman í kassa. Við erum sem sagt byrjuð með aðventuna, enda búðirnar orðnar fullar af jólabjór (mæli með 2 below frá New Belgium Brewery, besti bjórinn hingað til - fyrsta fulla hús stiga).

Kalkhúnn?

Tyrkinn er kominn í hús. Sex kílóa hlunkur sem Tómas ætlar að elda á fimmtudaginn (við borðum hann þó ekki ein). Svo er almennt frí á fimmtudag og föstudag (og líka laugardag og sunnudag). Hjördís þarf þó að læra því skólinn hjá henni klárast eftir viku. Þá fær hún vikufrí með frú Guðbjörgu frá Staðarbakka sem er að koma í aðventuferð. Hún kemur með vinkonu sinni svo stór hluti kvenfélags Fljótshlíðar mun reyna að ýta bandaríska hagkerfinu aftur á réttan kjöl með aukinni einkaneyslu. Hjördís og KK koma svo heim 7. desember og Tómas viku seinna. Smáfjölskyldan fer svo aftur út á þrettándanum. Tómas verður í fullu starfi í fjarvinnu fyrir Landsbankann í San Francisco eftir áramót og Hjördís heldur áfram að verða meistarabráðahjúkka. Tómas ætlar þó líka að halda áfram að læra arabísku. Hér fylgir með mynd af innganginum á spítalann í Stanford. Þar er hægt að fá menn til þess að leggja bílunum fyrir mann - svona eins og á fínum veitingahúsum eða alvöru sveitaklúbbum. Svona fínn gosbrunnur myndi líka örugglega bæta starfsandanna á LSH.

 sund 001

 

 


Flugsund og fleiri fréttir

Skelltum okkur í tvö matarboð um helgina - og ekki eins og við höfum verið að svelta fyrir. Á laugardagskvöldið var matur hjá Maríu og David - en María er hjúkka hjá UCSF og David er Kanadamaður umfram allt. Á sunnudeginum var svo matur hjá Brössunum, sem voru sem fyrr í miklu stuði sérstaklega kvensjúkdómalæknirinn Ricardo með allar bransasögurnar sínar. Í millitíðinni var svo afmæli hjá bekkjarsystur KK. Að sjálfsögðu dugaði ekkert minna en listastúdío (en þó ekki piníada eða dýr). Eins og í öllum góðum amerískum barnaafmælum var jólabjór og vín handa foreldrunum. Héðan í frá verður bjór handa pöbbunum ein af grundvallarstoðum afmæla hjá KK.

Í öðrum fréttum er það helst að Hjördís er orðin prófaður og skráður hjúkrunarfræðingur í Kaliforníuríki - svokölluð RN. Hún má því löglega hjúkra hér til 2009 (ekkert fúsk lengur). Þessu til staðfestingar fékk hún glitrandi fínt kort í pósti í dag.

Í enn öðrum fréttum má nefna að KK er í sundtímum 2X í viku. Kananum finnst bringusund fyrir aumingja, svo það dugar ekkert minna en skriðsund og bakskriðsund fyrir krakkann. Fyrir áhugasama (og tæknivædda) fylgir hér myndband af prinsinum á sundi. Hjördís tók myndbandið og fékk fyrir það miklar skammir frá öryggisvörðunum fyrir að mynda börn í sundlaug. Hún þurfti því að beita vígvallatækni til þess að koma myndbandinu út úr sundhöllinni og inn á internetið.

Ps. bjórinn er kominn í ískápinn fyrir Erik og hans ektafrú. Nú er bara að kaupa miðana, smyrja sörfbretting og skerpa skíðin.


Hversdagur

Það er farið að styttast í að Hjördís verði 4/6 meistarabráðahjúkrunarfræðingur. Hún verður þá einn bráðasti hjúkrunarfræðingur landsins. Hún er því nú að skrifa ritgerðir upp á hvern dag og taka síðustu vaktir á spítalanum í Stanford (sem er í daglegu tali kallaður sveitaklúbburinn). Strákarnir eru bara í því sama - nema KK er nú orðin mun betri en Tómas á hjólabrettinu (þurfti nú kannski ekki mikið til).

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband