Á leiðinni heim

Við enduðum ferðalagið okkar til Maui á því að fara í brimbrettatíma. Það er vafalítið eitthvað það skemmtilegasta sem við höfum gert. Dave, kennarinn okkar, og aðstoðarkona hans sögðu stöðugt "radical" og "awsome" og gáfu okkur fimmur hægri og vinstri. Við skyldum ekki helminginn af því sem þau sögðu, en nóg til þess að standa hverja ölduna á fætur annarri. Eftir sex frábæra daga á Maui, og meiri ananas en flest fólk borðar á heili ævi, flugum við til San Francisco til þess að þvo og pakka upp á nýtt. Á fimmtudaginn fljúgum við svo til Minneapolis á heim á leið á föstudag. Við verðum kominn á leiðarenda á laugardagsmorgun. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest á næstu tveimur mánuðum. Miðað við vaktaplanið hjá Hjördísi þá gæti verið besta leiðin að ná á hana að slasa sig aðeins og mæta í Fossvoginn.

Fyrir áhugasama þá eru nýjar myndir á myndasíðunni.


Surfin USA

Við keyrðum um Maui í dag á blæjubíl með strákinn í skottinu með júkaleilí syngjandi hástöfum "surfin USA". Hann stoppaði í miðju California girls þegar við sögðum honum að lagið væri um hvað stelpur eru sætar - hann er sem sagt enn sannfærður um að þær séu eitraðar. Maui er annars eins og himnaríki á jörð. Gott veður, regnskógar, hvítar og svartar strendur og feitir kallar með júkaleilí. Fórum veginn til Hana í dag og upp á 3.000 metra hátt eldfjall. Nú taka við strandadagar og tímar í surfi. Við verðum að vera fulnuma í því áður en við snúum heim.

Annars er allt flæðandi af nýjum myndum á myndasíðunni.


Meðal dóna og róna í arisóna

Voru að koma til baka úr hraðferð um Ameríku. Hver staðurinn öðrum betri. Og fyrir áhyggjusama þá fórum við ekki á Ragnari heldur réðum í verkið atvinnubíl af jeppategund. Við keyrðum sem leið lág með bóndahjónin af Suðurlandi um Yosemite (með stórum trjám og erni) í gegnum Dauðadalinn (49 gráður og sól) um Vegas (þar sem við gistum í höll) og að Miklagljúfri (þar sem Lukku Láki var meðal dóna og róna). Frá Arizona var svo tekið strikið heim á leið.

Á þriðjudaginn förum við til Maui. Komum svo heim í lok mánaðarins. Förum þá að vinna.


School's out for summer...

Í dag er síðasti skóladagurinn hjá Kristni Kára. Drengurinn ætlar að mæta með Polo-kex frá Íslandi og íslenskar bækur í skólann. Við reyndum að finna bækur um hvalveiðar en fengum bara um lunda. Kristinn Kári er núna búinn að vera í Montesori House of Children í hálft ár. Á þeim tíma hefur hann lært að stauta á ensku, spegla í hnitakerfi, reikna dæmi upp í 999 plús 999 og leika sér við börn af öllum litum og gerðum (nema eignlega stelpur, út af því að þær eru eitraðar). Hjördís er líka búinn. Hún er nú 50% bráðahjúkka, hún hjúkrar því 50% bráðar en venjulegar hjúkkur á slysó. Til þess að halda upp á þennan áfanga eru foreldrar hennar í heimsókn.

Til þess að halda upp á þessa merkisáfanga var öllum raðað í Ragnar á sunnudaginn. Hersingin keyrði svo til Napa, langt, langt uppi í sveit. Þar var smakkað á vínum hjá Mondavi, Sattui og Sterling. Tómas fékk að keyra. Á þriðjudag er svo stefnan tekin á Yosemite, þaðan til Death Valley, Grand Canyon, San Francisco, Maui, Minneapolis og þá Klakinn. Við sjáumst 30. júní.


Spenna

Hjördís er sem stendur á fullu í lokaprófum. Hún ætlar að vera búin á föstudaginn. Það hentar sérstaklega vel þar sem foreldrar hennar mæta í heimsókn þá um kvöldið. Kristinn Kári er að sprynga úr spenningi að fá ömmu sína og afa. Honum finnst fulllangt síðan hann var ofdekraður almennilega (alveg síða foreldrar Tómasar voru hérna í apríl). Á þriðjudaginn leggjum við af stað í road-trip. Stefnan er tekin á Grand Canyon. Það verðu keyrt stíft svo Guðbjörg verður að sætta sig við að versla á bensínstöðvunum. Enginn tími fyrir moll. 19. júní förum við svo til Hawaii, nánar tiltekið Mauii. Bara til þess að tryggja basetanið áður en við förum heim.

Meira blogg

Fyrir áhugsama um þá er Tómas að skrifa um kosningabaráttuna fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á kosningar08.blog.is

Bara gullpillur héðan í frá

Hjördís verður í verknámi á trauma-gjörgæslu Stanfordspítala í haust. Spítalinn er einhver sá flottasti í Ameríkunni - örugglega bara gullhúðaðar pillur og silkirúmföt. Smáfjölskyldan er því sérstaklega spennt.

Tillaga

Kennarinn hans Kristins Kára sagði í dag: "somebody should chop you up and sell you for energy bars". Hmm tekur maður þessu sem hrósi. Annars er KK með frænku Nancy Pelosi í bekk. Nú er bara að gera þau að vinum - og þá verðum við rík.

Nýjar myndir

Það eru komnar nýjar myndir á myndasíðuna. Sjá linkinn hérna fyrir neðan vinstra meginn.

Hvítasunnustuð

Við skelltum okkur út fyrir bæinn um helgina líkt og aðrir landsmenn. Á laugardagsmorgun keyrðum við upp til Sacramento þar sem við kíktum á alvöru Ameríku. Þar voru allir feitir (nema við) og fólk klæddist fánalitunum sem mest það mátti. Það væri ekki leiðnlegt ef maður skellti sér í Bónus í Holtagörðum og þar væru allir í pallíettuvestum með hvítum og rauðum krossum bláum grunni - þá fyrst gæti maður verið stoltur. Um kvöldið fórum við í matarboð til íslenskra hjóna (Orra og Laufeyjar) sem búa rétt fyrir utan Sacramento. Þar voru bæði Íslendingar og Rússar - og því lá beint við að Eurovison yrði eitt aðalumræðuefnið.

Á hvítasunnudag keyrðum við upp til Lake Tahoe, í sólbað nær guði. Skelltum okkur á ströndina í 2000 metra hæð og 25 gráðu hita með furutré frekar en pálmatré yfir okkur (dyggir lesendur taka vafalaust eftir að við fórum á skíði á sama stað fyrir tveimur mánuðum). Við gistum í Sout Lake Tahoe í eina nótt. Á annan í hvítasunnu, eða memorial day, var meira strandastuð og minigolf á leiðinni heim. Kristni Kára fannst það sérstaklega skemmtilegt. Við þurfum þó aðeins að herða okkur ef hann á að verða næsti Tiger og sjá fyrir okkur í ellinni með golfsveiflunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband